Fjármálaeftirlitið er nú að leggja lokahönd á hæfismat á vogunarsjóðunum Taconic Capital og Attestor Capital um að þeim verði heimilt að eiga meira en 10% í Arion banka. Í dag eiga vogunarsjóðirnir hvor um sig 9,99% hlut en niðurstaða FME sem birt verður í þessari eða næstu viku verður að gefa þeim grænt ljós á að eiga stærri, og virkan eignarhlut að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá eru sjóðirnir í dag ekki með virkan atkvæðisrétt út á eignarhald sitt, en samhliða samþykki FME verður atkvæðisréttur þeirra virkjaður. Fulltrúar Kaupþings stefna að því að setja Arion banka í útboð og skrá hann í kauphöll, en fyrst vilja þeir að stjórnvöld falli frá forkaupsrétti í bankann ef hann yrði seldur á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé.

Hafa þeir fundað með forystumönnum stjórnvalda og embættismönnum síðustu tvær vikur til að ná samkomulagi um endurskoðun á forkaupsréttarákvæðinu , en þeir segja útboð að öðrum kosti óframkvæmanlegt. Segja þeir forkaupréttinn skapa óvissu og aftra áhugasömum fjárfestum frá þátttöku.