Eignarhaldsfélag í eigu Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta en félagið, sem ber nafnið Hreiðar Már Sigurðsson ehf., var stofnað til utanumhalds um hlut Hreiðars í Kaupþingi og Existu. Í árslok var virði Kaupþingshlutarins 6,4 milljarðar en Existuhlutarins 120 milljónir króna. Sem kunnugt er eru hlutabréf þessara tveggja fyrirtækja verðlaus í dag.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins voru skuldir félagsins í lok árs 2008 um 7,3 milljarðar króna og þar af var skuld við eigandann upp á 1,3 milljarða. Kröfulýsingarfrestur er til 26. júní.