Miðengi ehf., eignarhaldsfélag Íslandsbanka, hefur eignast allt hlutafé í félaginu Jarðboranir hf. Breyting á eignarhaldi kemur í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar bankans á Jarðborunum. Sú vinna hefur staðið yfir undanfarna mánuði, að þvi er kemur fram í tilkynningu.

„Markmið endurskipulagningarinnar er að treysta rekstur félagsins og leggja grunn að nýjum sóknarfærum. Breytt eignarhald mun ekki hafa áhrif á daglegan rekstur Jarðborana eða þá stefnu félagsins um að vera í forystu á sínu sviði. Nú starfa um 150 manns hjá félaginu og dótturfélögum þess,“ segir í tilkynningu.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær eignarhluturinn verður settur í söluferli.

„Jarðboranir hafa um árabil borað eftir jarðhita og gasi víða um heim jafnhliða því að sinna verkefnum á Íslandi, en það er sá grunnur sem félagið hefur byggt á. Þannig hefur fyrirtækið flutt út íslenskt hugvit og reynslu og nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar á sínu sviði. Samstæða Jarðborana samanstendur auk móðurfélagsins af Jarðborunum innanlands, Iceland Drilling Azores Lda og Hekla Energy GmbH.“

Nýja stjórn Jarðborana hf. skipa Geir A. Gunnlaugsson, Gunnar Guðni Tómasson, Hrafn Magnússon, Kirstín Flygenring og Sigrún Elsa Smáradóttir

Bent S. Einarsson, forstjóri Jarðborana, segir í tilkynningu: „Það er ánægjulegt að hafa lokið fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Jarðboranir hafa gegnt lykilhlutverki í nýtingu jarðvarma á Íslandi og víða erlendis. Ljóst er að sú þekking, reynsla og tækjabúnaður sem félagið býr yfir mun nýtast viðskiptavinum okkar vel í framtíðinni við uppbyggingu, öflun og nýtingu jarðvarma.“