Eignarhaldsfélagið ehf. hefur í dag keypt 98% hlutafjár í Verði Íslandstryggingu hf. Kaupin eru háð samþykki Fjármálaeftirlitsins um að kaupendur fari með ráðandi hlut í félaginu, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Að Eignarhaldsfélaginu ehf. standa SP- Fjármögnun sem er með 49% hlut, Landsbanki Íslands með 26% og Sparisjóður vélstjóra með 25%.

Vörður Íslandstrygging mun áfram starfa undir eigin vörumerki en áhersla verður lögð á að auka þjónustu félagsins. Nýir eigendur hyggjast byggja á þeim góða grunni sem fyrir en sjá meðal annars tækifæri til að efla félagið með því að nýta þær dreifileiðir sem opnast með breyttu eignarhaldi.

Vörður Íslandstrygging varð til í upphafi árs 2005 við sameiningu tveggja tryggingarfélaga, Varðar og Íslandstryggingar. Vörður var stofnað árið 1926, þá undir nafninu Vélbátasamtrygging Eyjafjarðar en nafni þess var breytt árið 1996. Íslandstrygging var stofnuð árið 2002 og lagði félagið áherslu á að þjóna fyrirtækjum og einstaklingum.

Samhliða kaupum Eignarhaldsfélagsins á ráðandi hlut í Verði Íslandstryggingu mun Guðmundur Jóh. Jónsson verða ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Guðmundur Jóh. hefur víðtæka reynslu úr viðskiptalífinu og starfaði meðal annars hjá Sjóvá, síðar Sjóvá-Almennum, í rúm 20 ár. Þann tíma sem Guðmundur Jóh. starfaði hjá Sjóvá gegndi hann lengst af stjórnunarstörfum og var hann meðal annars starfsmannastjóri, framkvæmdastjóri tjónasviðs, framkvæmdarstjóri fjármálasviðs og fulltrúi forstjóra. Guðmundur Jóh. gegnir nú starfi forstöðumanns útlánasviðs SP-Fjármögnunar.

Guðmundur Jóh. hefur einnig reynslu af setu í stjórnum ýmissa fyrirtækja og má þar nefna Nýherja og Securitas þar sem hann gengdi stjórnarformennsku. Guðmundur er viðskiptafræðingur og er með MBA gráðu frá Edinborgarháskóla.

?Við sjáum fram á að geta boðið viðskiptavinum Varðar Íslandstryggingar upp á betri og fjölbreyttari þjónustu í kjölfar þessara kaupa," segir Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar hf. og formaður stjórnar Eignarhaldsfélagsins ehf.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf. var ráðgjafi Eignarhaldsfélagsins ehf. í tengslum við kaupin.