Eignarhaldsfélaginu Runnur ehf., hefur verið skipt upp í Runna ehf. annars vegar og fjögur óstofnuð félög, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fyrir skiptinguna var Runnur ehf. í eigu Mogs ehf., Sólstafa ehf., Bygg Invest hf., Primus ehf.  sem er félag í eigu Hannesar Smárasonar forstjóra FL Group  og Saxhóls ehf. Eftir skiptinguna er Runnur ehf. í eigu Mogs ehf. en eigendur þess félags eru Þorsteinn M. Jónsson, Magnús Ármann og Kevin G. Stanford.

Hlutur Runnar í Teymi lækkar í 2,4% úr 9,59%. Runnur 2 ehf., sem er í eigu Sólstafa ehf. og er fjárhagslega tengt Þorsteini M Jónssyni,  kaupir 2,4% í Teymi, samkvæmt tilkynningunni.

Þrjú önnur félög,  í eigu Bygg Invest ehf., Primus ehf. og Saxhól ehf., eignast 1,6% hlut hvert í Teymi.

Ennfremur er tilkynnt til Kauphallarinnar að félögin Runnur ehf. og Runnur 2 ehf. lækki hlut sinn í afþreyingar- og fjölmiðlafyrirtæinu 365 í 12,7% úr 17,9%.

Þessi hópur sem nú hverfur úr Runna hefur áður fjárfesta saman. Þeir eiga hluti í fasteignafélaginu Eik og Húsasmiðjunni.

Eikarhald ehf., eignarhaldsfélag fasteignafélagsins Eik, er í eigu Baugs Group hf. (22,7%), FL Group hf. (49%), Fjárfestingafélagsins Primus ehf. (10,15%) og Saxbygg ehf. (18,15%) sem er í eigu Saxhóls ehf. og Byggingarfélags Gylfa og Gunnars ehf.


Eignarhaldi Húsamiðjunnar er svo háttað: Baugur Group hf. (45%), Saxhóll ehf. (18,3%), Fjárfestingarfélagið Prímus ehf. (18,3%) og Byggingarfélag Gylfa og Gunnars ehf. (18,3%).