Bein fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi jókst um 9 milljarða króna í fyrra. Það sem skýrir það helst er að bein eign aðila sem skráðir eru á Guernsey jókst um 11 milljarða króna. Eignarhald aðila á þessari litlu eyju undan ströndum Bretlands nam 5,6 milljörðum króna í lok árs 2002 en var komið upp í 16,5 milljarða króna í árslok 2003 og bendir flest til þess að íslensk eignarhaldsfélög hafi verið færð þangað í auknum mæli. Það sem getur þó að einhverju leyti skýrt þessa aukningu er einfaldlega gengishagnaður milli ára en íslenski hlutabréfamarkaðurinn gaf mjög vel af sér á síðasta ári. Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að bein eign erlendra aðila sem skráðir eru í Lúxemborg og eru að mestu leyti eignarhaldsfélög í eigu Íslendinga jókst um 4,8 milljarða króna eða 45% sem rímar ágætlega við þá hækkun sem varð í Kauphöllinni á síðasta ári.

Í upplýsingum frá Seðlabankanum kemur fram að bein fjármunaeign Íslendinga erlendis jókst um 18 milljarða króna í fyrra. Þar munar mest um aukna eign í Bretlandi sem jókst úr 16,8 milljörðum króna í árslok 2002 í 25,6 milljarða króna og skýrist að stærstu leyti af kaupum Baugs í bresku tískuvörukeðjunni Oasis. Einnig koma til auknar fjárfestingar viðskiptabankanna þar eins og kaup KB banka á Singer & Friedlander. Eign í Danmörku jókst um 1,1 milljarð króna og skýrist af stærstu leyti af kaupum nokkurra íslenskra athafnamanna á danska matvælaframleiðslufyrirtækinu Larsen.