Samkvæmt frétt í norska veffréttaritinu Dagens Næringsliv hefur dótturfélag Kaupþings keypt stóran hlut í norska tryggingafélaginu Storebrand. Talið er að eign Kaupþings í félaginu sé núna tæpir 800 milljónir norskra króna eða um 7 milljarðar kr. eins og greiningardeild Landsbankans bendir á í Vegvísi sínum. Eignarhluturinn nemur tæplega 5% af andvirði félagsins sem gerir Kaupthing Norge AS að fjórða stærsta hluthafa félagsins.

Storebrand er gamalt og rótgróið fyrirtæki í Noregi. Það sérhæfir sig aðallega í líf- og sjúkratryggingum, bankastarfsemi og eignastýringu. Storebrand er með 28% markaðshlutdeild á líftryggingamarkaðinum í Noregi og er að hefja starfsemi í Svíþjóð.

Gengi bréfa Storebrand hefur sveiflast mjög mikið síðastliðna 12 mánuði eða frá lægst 46,4 í hæst 68,75. Gengi bréfa Storabrand hækkaði í dag um 3,49% og var lokagengi félagsins 66,75.