Íbúðalánasjóður seldi 584 eignir á fyrstu tveimur mánuðum ársins, eftir því sem fram kemur í mánaðarskýrslu sjóðsins. Þar munar mest um yfirtöku Kletts leigufélags á 517 eignum sjóðsins, en Klettur er alfarið í eigu Íbúðalánasjóðs.

Að auki hefur hefðbundin eignasala sjóðsins aukist á milli ára, jafnvel þótt salan til Kletts sé dregin frá. Þannig seldi sjóðurinn samtals 67 eignir í janúar og febrúar á þessu ári, en 22 eignir á sama tímabili í fyrra.

Af 2.111 heildareignum sjóðsins eru 1.017 í sölumeðferð, flestar á skrá hjá fasteignasölum, og 881 íbúð víðsvegar um landið er í útleigu á vegum sjóðsins.