Eignabjarg ehf., dótturfélag Arion banka, skilaði 2,4 milljarða króna hagnaði á árinu 2012 samkvæmt ársreikningi félagsins. Á sama ári var hlutafé félagsins lækkað tvisvar eða samtals um 14 milljarða króna sem greiddir voru út til eina hluthafa félagsins, Arion banka.

Í ársreikningi félagsins kemur fram að gert sé ráð fyrir 1,3 milljarða króna arðgreiðslu vegna rekstrar ársins 2012. Eignir félagsins námu í árslok 2012 um 4,2 milljörðum samanborið við um 15,8 milljarða í lok árs 2011. Á árinu 2012 hafði félagið meðal annars selt allan hlut sinn í Högum og Pennanum á Íslandi ehf. Þá var einnig BM Vallá afhent nýjum eigendum eftir að Samkeppniseftirlitið samþykkti söluna. Eignabjarg á ennþá 100% hlut í Fram Foods og 42,65% hlut í Reitum fasteignafélagi samkvæmt ársreikningi Eignabjargs.