Ríkisstjórn Ítalíu hefur ákveðið að afnema óvinsælan eignaskatt og í frétt á vef Time segir að þetta sé hlutur af samkomulagi milli lýðræðisflokks forsætisráðherrans Enrico Letta og hægribandalags Silvio Berlusconi.

Í stað eignaskattsins á að setja upp þjónustuskatt á næsta ári. Þingmenn í flokki Berlusconi höfðu hótað því að hætta stuðningi við stjórnina yrði eignaskatturinn ekki afnuminn. Nú þykir Letta hafa skapað sér svigrúm til að koma á umbótum, sem nauðsynlegar eru taldar til að vekja hagkerfi landsins aftur til lífsins.

Afnám eignaskattsins mun auka halla á rekstri ríkissjóðs Ítalíu um sem nemur fjórum milljörðum evra og hafa stjórnarliðar ekki viljað svara því nákvæmlega hvernig brúa eigi þetta bil. Letta lagði áherslu á að nýi þjónustuskatturinn væri ekki eignaskattur í dulargervi og að Ítalía myndi standa við skuldbindingar sínar hvað varðar ríkisfjármál.