Dominos í Bretlandi (Domino‘s Pizza Group), sem er stærsta pizzukeðja Bretlands, hefur keypt 44,3% hlut íslenskra fjárfesta í rekstri Domino‘s á Íslandi og á nú 95,3% í fyrirtækinu. Breska fyrirtækið, sem skráð er í bresku kauphöllina, sendi frá sér tilkynningu þess efnis nú í morgun.

Domino‘s Pizza Group keypti upphaflega 51% í Domino´s á Íslandi haustið 2016 og fylgdi með í kaupunum réttur til að eignast fyrirtækið í heild sinni eftir annað hvort þrjú eða sex ár. Fjárfestingarfélagið Eyja, í eigu Birgis Þór Bieltvedt og konu hans, fjárfestingarfélagið Edda í eigu lífeyrissjóða og Högni Sigurðsson hafa nú selt alla sína hluti.

Kaupin nú eru því nokkuð á undan áætlun og segir David Wild, forstjóri Domino´s Pizza Group, í tilkynningu til bresku kauphallarinnar ástæðuna vera góðan árangur íslenska fyrirtækisins og tækifæri sem til staðar séu á íslenska markaðnum.

Viðskiptin munu ekki hafa nein áhrif á íslenska neytendur og reksturinn verður áfram í höndum núverandi stjórnenda. Tveir lykilstjórnendur á Íslandi, þeir Birgir Örn Birgisson og Steinar Sigurðsson, halda eftir hluta af sínum eignarhlut og eiga þeir saman um 4,7% í fyrirtækinu eftir viðskiptin.

Lífeyrissjóðirnir hafa meira en tvöfaldað fjárfestingu sína

Framtakssjóðurinn Edda, sem er í eigu stærstu lífeyrissjóða landsins, keypti fjórðungshlut í Domino‘s á Íslandi í mars 2015 og með sölunni er ljóst að sjóðurinn hefur meira en tvöfaldað fjárfestingu sína á tímabilinu. Einnig hverfa úr eigendahópnum nú Högni Sigurðsson og fjárfestingarfélagið Eyja, sem er í eigu Birgis Þórs Bieltvedt og eiginkonu hans Eyglóar Kjartansdóttur.

Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino´s á Íslandi segir þetta vera góðar fréttir. „Bæði fyrir þá sem byggt hafa upp og fjárfest í velgengni Domino‘s hér á landi en ekki síður fyrir starfsmenn og stjórnendur fyrirtækisins,“ segir Birgir Örn.

„Við getum nú átt enn nánara samstarf við Bretland og vonandi nýtt okkur þekkingu þeirra til að verða áfram í fararbroddi á markaðnum hér. Það að Bretarnir skuli hafa flýtt því að nýta sér kaupréttinn er mikil viðurkenning á því starfi sem starfsfólk Domino‘s á Íslandi hefur unnið.“

Um Domino‘s á Íslandi

Fyrsti Domino‘s pizzastaðurinn á Íslandi var opnaður árið 1993. Í dag rekur fyrirtækið 23 slíka staði á Íslandi. Um 800 starfsmenn starfa hjá Domino‘s hér á landi, ríflega helmingur þeirra í hlutastarfi.