Berjaya samstæðan sem fest hefur kaup á Icelandair Hotels og tengdum fasteignum, eins og greint var frá á laugardag , mun ekki eignast hlut í Icelandair Group í Lindarvatni ehf. sem vinnur að byggingu hótels á Landssímareitnum við Austurvöll. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group til Kauphallarinnar varðandi sölu á Icelandair Hotels. Icelandair Group á 50% hlut í Lindarvatni á móti Dalsnesi ehf. sem á hinn helminginn í félaginu en Dalsnes er í eigu Ólafs Björnssonar.

Eins og áður hefur verið greint frá mun Berjaya eignast  75% hlut í Icelandair Hotels en Icelandair Group þarf að halda á 25% hlut í að minnsta kosti þrjú ár. Samhliða kaupsamningnum skrifuðu Icelandair Group og Berjaya undir kaup- og söluréttarsamninga vegna hins eftirstandandi 25% hlutar. Í tilkynningunni frá því í dag kemur fram að samningurinn er ekki nýtanlegur fyrr en þremur árum liðnum frá viðskiptunum og verður þá nýtanlegur einu sinni á ári í þrjú ár. Þá mun verð í kaup- og söluréttarsamningnum miða við 10 sinnum EBITDA hagnað félagsins, án IFRS 16 áhrifa, ársins á undan að frádregnum nettó vaxtaberandi skuldum þegar rétturinn er nýttur. Samkvæmt tilkynningunni liggur ekki fyrir hvort Icelandair muni nýta sér réttinn.

Líkt og áður hefur verið sagt frá heildarvirði Icelandair Hotels og tengdra fasteigna 136 milljónir dollara og nemur heildarvirði 75% hlutar Berjaya því 102 milljónum dollara. Endanlegt kaupverð mun hins vegar ráðast af stöðu nettó veltufjármuna og nettó vaxtaberandi skulda á afhendingardegi. Kaupverðið verður greitt í áföngum með reiðufé til Icelandair Group og skal kaupverð að fullu greitt við árslok 2019 samhliða afhendingu hins selda.

Kaupsamningurinn er þar að auki háður ýmsum skilyrðum, meðal annars um nauðsynleg samþykki á grundvelli laga nr. 21/1966 og endurfjármögnun hins selda. Áreiðanleikakönnun hefur þó nú þegar verið framkvæmd af Berjaya.