Auður I, fagfjárfestingasjóður á vegum Auðar Capital hefur keypt helmingshlut í Íslenska gámafélaginu. Um er að ræða nýtt hlutafé í fyrirtækinu. Sjóðurinn hefur nú keypt hlutafé í nokkrum fyrirtækjum fyrir um þrjá milljarða króna og er hann fullfjárfestur.

Íslenska gámafélagið sinnir sorphirðu fyrir fyrirtæki og sveitarfélög og veitir tengda þjónustu s.s. ráðgjöf, heildsölu, endurvinnslu og útflutning á endurunnu sorpi. Þá leigir það tæki, gerir metanbreytingar og sinnir annarri tengdri þjónustu. Starfsmenn eru alls 240 og fyrirtækið er með starfsstöðvar á 13 stöðum um allt land.

Fram kemur í tilkynningu frá Auði Capital að rúmlega 20 fagfjárfestar komi að sjóðnum Auður I. Þar á meðal eru flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins. Sjóðurinn á hlut í 8 félögum, þ.á.m. Ölgerðinni, Já og Securitas.