Kanadíska félagið St. Georges Eco-Mining hefur fest kaup á Melmi ehf. fyrir allt að 82 milljónir króna. Með því eigast St. Georges öll leyfi til gulleitar á Íslandi.

Hlutabréf St. Georges eru skráð á markað í Kanada, Frankfurt og Bandaríkjunum en stjórnendur St. Georges eiga samtals um 20% hlut í fyrirtækinu. Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson er forstjóri og stjórnarmaður St. Georges, en að hans sögn eru hluthafar félagsins líklega um tvö til þrjú þúsund.

Iceland Resources ehf., dótturfyrirtæki St. Georges, heldur utan um starfsemina á Íslandi, en framkvæmdastjóri Iceland Resources er Þórdís Björk Sigurbjörnsdóttir. Iceland Resources og Melmi hafa undanfarin ár verið í samstarfi við rannsóknir og fyrirhugaða leit að gulli á Íslandi. Melmi var áður í eigu Málmíss ehf., sem er aðallega í eigu ýmissa stofnana.

Að sögn Vilhjálms felst mikil hagræðing í því að eignast öll leyfin. Þannig getur fyrirtækið unnið verkefnin á eigin hraða og forsendum, auk þess að stýra ákvörðunartöku í ferlinu án aðkomu hinna fjölmörgu stofnana að baki Melmi.

Gull „beint frá býli"

St. Georges leggur áherslu á að þróa umhverfisvænni og samfélagslega ábyrgari aðferðir en áður hafa þekkst við að grafa eftir og fullvinna gull.

„Hér á Íslandi eigum við möguleika á að vinna umhverfisvænasta og samfélagslega ábyrgasta gull í heimi. Efnafræðiarmur fyrirtækisins er að skoða efnasamsetninguna á grjóti og gulli hér á landi og hvernig við getum hugsanlega nálgast það. Markmið okkar er að geta búið til eins konar gull beint frá býli, þannig að íslenska gullið fái ákveðna sérstöðu. Það er mjög sjaldgæft að gull njóti uppruna síns. Að okkar mati er tíðarandinn þannig að neytendur vilja þekkja uppruna skartsins síns og séu tilbúnir til að greiða fyrir að vita að það voru, sem dæmi, ekki börn sem sóttu gullið, sem jafnvel hafa orðið útsett fyrir blásýru í leiðinni."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .