Icelandair stefnir að því að selja um 80% hlut í félaginu með útgáfu nýs hlutafjár í komandi hlutafjárútboði. Útgefið hlutafé í Icelandair í dag mun þynnast niður í um 21%-19% gangi hlutafjárútboð Icelandair eins og stefnt er að. Hluturinn kann þó að þynnast niður í allt að 16% nýti kaupendur nýrra hluta í útboðinu sér áskriftarréttindi sem fylgja útboðinu.

Útboðsgengið verður 1 króna á hlut samkvæmt tilkynningu sem Icelandair sendi út í kvöld. Gengi bréfa í Icelandair stóð í 1,64 krónum á hlut við lokun markaða í dag og hefur lækkað um 76% frá áramótum. Markaðsvirði félagsins við lokun markaða í dag var 8,9 milljarðar króna.

Sjá einnig: Icelandair seinkar útboði

Ráðgert er að hlutafjárútboðið fari fram í september en ekki í ágúst eins og stóð til. Til þess þarf þó að boða til hluthafafundar og óska eftir nýrri heimild til hlutafjáraukningar þar sem fyrri heimildin rennur út þann 1. september.

Icelandair  stefnir á að sækja sér að 20 milljarða en 3 milljarða króna til viðbótar verði umframeftirspurn í útboðinu. Þá eiga nýju hlutum að fylgja áskriftarréttindi (e. warrant) sem samsvara allt að 25% af skráningu nýrra hluta í fyrirhuguðu útboði.

Helst hefur verið horft til íslenskra lífeyrissjóða sem mögulegra kaupenda í útboðinu, ekki síst núverandi hluthafa Icelandair en alls eiga lífeyrissjóðir um helmingshlut í félaginu. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði við Viðskiptablaðið í síðustu viku, að helst yrði horft til íslenskra fjárfesta í útboðinu.

Sjá einnig: Horfa til íslenskra fjárfesta

Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafinn með 11,81% hlut, en Gildi, Birta og LSR, eiga öll um 6-7% hlut hvert um sig í félaginu.

Icelandair lauk í síðustu viku samningum við Boeing vegna 737 MAX flugvélanna sem fólu í sér bætur til Icelandair og að hætt verði við afhendingu fjögurra flugvéla og öðrum seinkað. Áður hafði félagið samið við flugstéttir og helstu kröfuhafa þess, sem voru forsendur þess að Icelandair færi í hlutafjárútboð. Þá eru viðræður um lánalínu með ríkisábyrgð á lokastigi. Gangi þær eftir stefnir félagið á að birta fjárfestakynningu á næstu dögum.