Niðurstöður skattaálagningar leiða í ljós að síðasta ár var mjög gott fyrir íslensk heimili þar sem eignastaðan batnaði til muna og tekjur jukust, segir greiningardeild Kaupþings banka en nú liggur fyrir álagning opinberra gjalda á einstaklinga og þá sem reka fyrirtæki í eigin nafni fyrir árið 2006.

?Í lok síðasta árs námu framtaldar eignir heimila tæplega 2.500 milljörðum króna sem er um 27% hækkun frá árinu 2004. Á sama tíma hækkuðu framtaldar skuldir heimila um 21% frá fyrra ári og námu alls 918 milljörðum króna í árslok 2005. Hlutfall framtalinna skulda á móti heildareignum lækkar úr 39,3% í 37,4%," segir greiningardeildin.

Tæpir 2/3 hlutar af eignum heimila eru fasteignir en álagningin er metin samkvæmt fasteigna mati en markaðsverð þeirra er yfirleitt mun hærra.

"Framtalið verðmæti fasteigna hefur aukist hraðar en framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa á síðustu árum og eignastaða heimila því batnað til muna. Frá árinu 2001 hefur verðmæti fasteigna samkvæmt framtali hækkað um 123% á meðan framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa hafa hækkað um 91%. Í árslok 2005 voru framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa um 33% af verðmæti fasteigna samkvæmt framtali miðað við 37% árið 2004," segir greiningardeildin.

Hún spáir að fasteignaverð lækki um 3% að nafnverði á næstu 12 mánuðum en greiningardeild Glitnis reiknað með um 5% - 10% lækkun á næstu tveimur árum.

?Þrátt fyrir skarpa lækkun fasteignaverðs ætti eignastaða heimilanna að haldast góð en mjög ólíklegt er að fasteignaverð falli niður fyrir fasteignamat á næstu misserum sem er eins og áður sagði að jafnaði talsvert undir markaðsverði," segir gerningardeildin.