Eigið fé einstaklinga á Íslandi hefur aukist verulega frá árinu 2010, þegar það var í lágmarki eftir fall bankanna. Alls nemur aukning eigin fjár einstaklinga 1.384,3 milljörðum króna, sem er 88% aukning á milli áranna 2010 og 2015, en ekki liggja fyrir tölur um stöðuna nú.

Hlutfallslega hefur staða einstæðra foreldra og hjóna með börn batnað mest. Árið 2010 var eiginfjárstaða einstæðra foreldra neikvæð um 6 milljarða króna, en var í árslok 2015 jákvæð um 69,4 milljarða króna. Eiginfjárstaða hjóna með börn hefur batnað um 184%, og farið úr 184,8 milljörðum í 524,3 milljarða. Til samanburðar hefur eiginfjárstaða hjóna án barna batnað um 60% á tímabilinu.

Eins er áhugavert að sjá að þegar eiginfjárstaða er skoðuð eftir aldursbilum hefur hún batnað mest hjá þeim sem eru undir fimmtugu og langmest hjá fólki á bilinu 35-44 ára, eða um 470-485%. Sá aldurshópur sem séð hefur eiginfjárstöðu sína batna minnst, hópurinn á aldrinum 60-66 ára, hefur þó séð hana batna um 58% á tímabilinu. Eins er áhugavert að sjá að í fyrra komst aldurshópurinn 25-29 ára fyrst upp í jákvæða eiginfjárstöðu á tímabilinu. Var hún neikvæð um 31 milljarð árið 2010 og var neikvæð um 30 milljónir árið 2014. Í fyrra var eiginfjárstaðan hins vegar orðin jákvæð um 8,8 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .