Ákveðið hefur verið að Eignastýring Íslandsbanka starfi undir merkjum VÍB á nýju ári. Þetta er gert sem liður í að aðgreina eignastýringarstarfsemi Íslandsbanka á skýran hátt frá bankastarfsemi á sama tíma og starfsemi og þjónusta einingarinnar verður efld enn frekar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en VÍB verður staðsett á Kirkjusandi og mun eftir sem áður þjóna viðskiptavinum Íslandsbanka í samvinnu við útibú bankans auk þess að þjóna sparifjáreigendum og öðrum fjárfestum óháð öðrum viðskiptum við Íslandsbanka eftir því er fram kemur í tilkynningunni.

Eignastýringarstarfsemi Íslandsbanka var rekin undir merkjum VÍB á árunum 1986-2001. VÍB var frumherji á sviði eignastýringar og lagði mikla áherslu á fagleg vinnubrögð og fræðslu til fjárfesta.

„Á síðastliðnum tveimur árum hafa verið stigin fjölmörg skref í því að styrkja undirstöður Eignastýringar Íslandsbanka og byggja þannig umgjörð að traust geti ríkt um sjálfstæði og fagmennsku á hverjum tíma,“ segir í tilkynningunni.

„Skýr aðgreining eignastýringarstarfsemi frá annarri starfsemi bankans er enn eitt skrefið í þessari þróun en mikil áhersla hefur verið lögð á að styrkja skipulag, verkferla, upplýsingakerfi, innra eftirlit og áhættustýringu.“