Að mati Fjármálaeftirlitsins eru eignatengsl í íslensku viðskiptalífi ekki alltaf nógu skýr. Þetta kom fram ræðu Páls Gunnars Pálssonar, forstöðumanns FME, á morgunverðarfundi Verslunarráðs í morgun. Þar kom fram hjá Páli að umfjöllun um verðbréfamarkaðinn gefur til kynna að menn séu vakandi fyrir hugsanlegum eignatengslum í mörgum tilvikum. Það taldi hann jákvætt. "Umræðan sýnir hins vegar að oft á tíðum ríkir ekki mikið traust á því að eignarhald fyrirtækja sé sýnilegt," sagði Páll.

Hann benti ennfremur á að ýmislegt getur flækt mat á þessu og dregið úr skýrleika. "Ekki er óalgengt að með einhvern hluta hlutafjár í skráðu fyrirtæki sé farið í gegnum safnreikninga, eða í nafni erlendra fjármálafyrirtækja. Eignarhaldsfélög og framvirkir samningar um hlutabréfakaup geta einnig flækt stöðuna.

Viðfangsefni Fjármálaeftirlitsins sem þessu tengjast eru af ýmsum toga. Í fjárhagslegu eftirliti fylgist Fjármálaeftirlitið með því hvort tengdir viðskiptamenn eða fyrirtækjahópar mynda stórar áhættur í bókum eins fjármálafyrirtækis, áhættur sem þannig geta haft víðtækari áhrif á eiginfjárstöðu viðkomandi fyrirtækis, en í fyrstu mætti ætla. Eins og fram kom á ársfundi í síðustu viku er þróun þessara mála Fjármálaeftirlitinu nokkuð áhyggjefni.

Í annan stað kemur til skoðunar hvort sameiginlegur eignarhlutur fleiri en eins aðila leiði til þess að til yfirtökuskyldu hafi stofnast.

Í þriðja lagi kemur alloft til skoðunar hvort fleiri en einn eigandi hlutafjár í fjármálafyrirtæki fari saman með virkan eignarhlut vegna innbyrðis tengsla. Það hefur þau réttaráhrif að sækja þarf um samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupum á eignarhlutnum," sagði Páll Gunnar.