Eignaverð hækkaði að raunvirði um 0,5% í nóvember og hefur því aðeins hækkað um 2,6% að raunvirði síðastliðna tólf mánuði, segir greiningardeild Kaupþings banka og styðst við eignaverðsvísitölu sína. En hún tekur mið af verðbreytingum fasteigna, hlutabréfa og skuldabréfa.

?Í upphafi ársins 2006 var 12 mánaða raunvöxtur vísitölunnar tæplega 20% en verulega hægði á vextinum um miðbik ársins. Á þeim tímapunkti var vaxandi verðbólga farin að bíta á raunvirði eigna og urðu auk þess nokkrar lækkanir á hlutabréfaverði á sama tíma og vísitala íbúðaverðs staðnaði. Næstu misseri þar á undan höfðu hinsvegar bæði húsnæði og hlutabréf gengið í gegnum gífurlegar verðhækkanir,? segir greiningardeildin.

Af þeim þremur þáttum sem eignaverðsvísitalan tekur mið af, hækkuðu hlutabréf mest á árinu, en úrvalsvísitalan hækkaði um tæplega 16%.

?Vísitala neysluverðs hækkaði aftur á móti um tæplega 7% yfir árið og nam hækkun hlutabréfaverðs því 9% að raunvirði. Verðmæti skuldabréfa hækkaði hinsvegar að jafnaði um 7% miðað við vegið safn skuldabréfa sem Greiningardeild hefur reiknað.

Að raunvirði var verðmæti skuldabréfa því að jafnaði óbreytt milli ára. Miðað við vísitölu íbúðaverðs frá nóvember sl. hefur íbúðaverð hinsvegar aðeins hækkað um 5,7% og hefur því lækkað um 1,3% að raunvirði á árinu,? segir greiningardeildin.