Eignaverðsvísitala Kaupþings sem samanstendur af húsnæði, hluta- og skuldabréfum lækkaði um 7,4% milli ára í september.

Lækkunin í mánuðinum er 1,7%.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.

Þar kemur fram að afar há verðbólga um þessar mundir tekur sinn toll af eignaverði og var raunlækkun eignaverðs í september 19% milli ára.

Greiningardeild Kaupþings segir húsnæðisverð nokkurn veginn hafa staðið í stað í september en lítilleg lækkun um 0,2% varð á fasteignaverði.

Velta jókst lítillega í september og var 362 samningum þinglýst miðað við 290 í ágúst.

„Fasteignaverð sem og annað eignaverð hækkaði mikið með auknum útlánavexti en nú þegar samdráttur verður á þeim vettvangi er líklegt að eignaverð fylgi í kjölfarið," segir í Hálffimm fréttum.

„Mikið framboð mun einnig hafa áhrif til lækkunar fasteignaverðs.“

Miklar breytingar hlutabréfa- og skuldabréfaverðs

Hlutabréf lækkuðu mjög mikið í verði í september, eða um 19% og var úrvalsvísitalan 3.395 stig við mánaðarlok. Á móti kemur að þau skuldabréf sem lögð eru til grundvallar vísitölunni hækkuðu um 8% og draga því talvert úr áhrifum lækkunar hlutabréfa, að sögn Greiningardeildar Kaupþings.

„Með aukinn áhættufælni vegna ástands á fjármálamörkuðum hefur ásókn aukist í ríkistryggð skuldabréf hvort sem er ríkisskuldabréf eða íbúðabréf Íbúðalánasjóðs. Ennfremur skilar há verðbólga eigendum verðtryggðra skuldabréfa hærri ávöxtun,“ segir í Hálffimm fréttum.

„Þegar litið er til eignaþróunar í október er ljóst að útlitið er dökkt.“