Dagblaðið The Oakland Tribune tók sýningu Matthew Barney (eiginmanns Bjarkar Guðmundsdóttur) í nýlistasafninu í San Fransisco til umfjöllunar í vikunni þar sem greint er frá því að mikil aðsókn að sýningunni sé rakin til tengsla hans við Björk. Ástæða þess að the Oakland Tribune nefnir þetta er að á sýningunni hefur samstarfsverkefni hjónakornanna, kvikmyndin Drawing Restraint, hlotið mesta athygli sýningargesta. Björk samdi tónlistina við myndina sem er mikið sjónarspil og skipar tónlistin stóran þátt í framvindu atriðanna. Tónlistin úr myndinni hefur einnig komið út á plötu.

Í greininni kemur fram að þegar Matthew Barney var síðast á ferðinni í nýlistasafninu í San Francisco árið 1991 hafi sýning hans vakið mikla athygli og í kjölfarið hafi hann skipað sér í fremstu röð nýrrar kynslóðar ungra listamanna sem voru að ryðja sér til rúms á þessum tíma. Nú mörgum árum síðar þegar hann snýr aftur er ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar enda hefur Matthew Barney stigið hægt en örugglega til hæstu metorða í listaheiminum og meðal annars verið kallaður mikilvægasti listamaður þessarar kynslóðar af New York Times.

Engu að síður telur greinarhöfundar að ekkert hafi unnið honum eins mikla frægð og hjónaband hans við Björk Guðmundsdóttur. Þar til að hann komst í kynni við hana hringdi nafn hans engum bjöllum nema hjá þeim sem fylgdust vel með listaheiminum. Mikil aðsókn á sýningu hans nú sýnir svo ekki um verði villst að það er tónlist Bjarkar sem trekkir marga að þar sem að hún höfðar til mun breiðari hóp fólks en eiginmaðurinn.