Í byrjun maí náði Almenni lífeyrissjóðurinn þeim áfanga að eignir sjóðsins fóru yfir 100 milljarða. Heildareignir sjóðsins voru 92,7 milljarðar í ársbyrjun og hefur sjóðurinn því vaxið um 8% á árinu.

Frá því að Lífeyrissjóður lækna og Almenni lífeyrissjóðurinn sameinuðust í ársbyrjun 2006 hafa eignir sjóðsins vaxið um 21% á ári að jafnaði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almenna lífeyrissjóðnum sem er fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins.

Löng saga

Saga Almenna lífeyrissjóðsins nær yfir marga áratugi en hún hófst þegar Lífeyrissjóður Tækni-fræðingafélags Íslands var stofnaður 4. maí 1965.

Í raun samanstendur sjóðurinn af sjö lífeyrissjóðum sem hafa sameinast en á mismunandi tímum. Þeir lífeyrissjóðir sem hafa sameinast í Almenna lífeyrissjóðinn eru ALVÍB (Almennur lífeyrissjóður VÍB), Lífeyrissjóður arkitekta, Lífeyrissjóður starfsmanna SÍF, Lífeyrissjóður FÍH, Lífeyrissjóður Félags leiðsögu-manna, Lífeyrissjóður lækna og Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands.