Starfssemi Baugs eru í uppnámi og þar af leiðandi verslanir félagsins í tískuvörugeiranum eftir að félagið fór fram á greiðslustöðvun í morgun.

Þannig byrjar umfjöllun breska blaðsins The Guardian sem í dag fjallar um greiðslustöðvun Baugs á vef sínum.

Í frétt Baugs kemur fram að Baugur kenni hinum ríkisrekna Landsbanka um hvernig komið er fyrir félaginu.

Þá kemur fram að skuldir Baugs gagnvar lánveitendum sínum nemi allt að einum milljarði sterlingspunda og blaðið hefur eftir greiningaraðilum að greiðslustöðvunin muni hrista verulega upp í verslunargeiranum á Bretlandi.

Þannig hefur blaðið eftir Nick Bubb, greiningaraðila hjá Pali International að þrátt fyrir ástandi á mörkuðum sé líklegt að barist verði um eigur Baugs.

Hann segir að margir muni sýna helstu keðjunum áhuga og telur líklegt að einkafjárfestingasjóðir verði notaðir til að bjóða í þær.

Þá hefur blaðið eftir öðrum greiningaraðila að fall Baugs muni orsaka „útsölu aldarinnar“ en þar er átt við að eignir félagsins muni skipta um hendur von bráðar.

Þá er Íslandsvinurinn Philip Green nefndur sérstaklega en Green reyndi s.l. að eignast eigur Baugs. Green er sagður geta greitt í reiðufé fyrir þá hluti sem hann vill eignast. Auk hans telur blaðið að Theo Paphitis, eigandi Rymans muni reyna að eignast félagið.

Blaðið tekur þó fram að félögin séu ekki í meirihlutaeigu Baugs. Engu að síður munu margir vilja eignast þá hluti sem Baugur á nú þegar.