Eignir Byrs hafa minnkað um 112,7,milljarða króna á tveimur árum. Í árslok 2008, tæpum þremur mánuðum eftir bankahrun, voru eignir Byrs sparisjóðs 253,2 milljarðar króna. Í nýbirtum ársreikningi Byrs hf., sem reistur var á grunni hins fallna sparisjóðs, eru eignirnar bókfærðar á 140,5 milljarða króna. Þær hafa því minnkað um 44,5% á tímabilinu. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þessar tölur séu afar nálægt því að endurspegla raunverulega virðisrýrnun eigna Byrs.

Þegar Byr sparisjóður fór á hausinn og eignir hans voru fluttar yfir til Byrs hf. voru 71,6 milljarðar króna settar á afskriftarreikning. Þá höfðu eignir hans þegar rýrnað um 40 milljarða króna frá árslokum 2008.

Um síðustu áramót hafði upphæðin á afskriftarreikningnum lækkað í 53 milljarða króna vegna þess að 19,2 milljarðar króna voru bókfærðir sem endanlega töpuð eign.

Óvissa um endurheimtur

Til viðbótar við það sem er á afskriftarreikningi Byrs eru 8,7 milljarðar króna í vanskilum, en teljast ekki til virðisrýrðra lána. Þar af hafði 4,1 milljarður króna verið í vanskilum í meira en ár, 3,9 milljarðar króna í 30-365 daga og 702 milljónir króna í allt að 29 daga. Í ársreikningnum kemur fram að Byr telji virði þessara lána vera „óskert annað hvort vegna þeirra trygginga sem eru að baki lánunum eða greiðslugetu lántakenda“. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er stór hluti þessara lána í biðstöðu vegna þess að lagaóvissa ríkir um hversu mikið þurfi að greiða af þeim. Í ábendingu endurskoðanda Byrs kemur þess vegna fram að það ríki „umtalsverð óvissa varðandi endurheimt lána í framtíðinni“ og að hún geti „haft veruleg áhrif á rekstrarhæfi Byr hf.“.

Byr hefur þegar fært 5,6 milljarða króna á afskriftarreikning vegna lána sem veitt voru viðskiptavinum bankans í erlendri mynt. Bankinn telur sig þó þurfa að færa 2,4 milljarða króna til viðbótar ef allir samningar sem gerðir voru um lán í erlendum myntum verði dæmdir ólögmætir.