Eignir dótturfélags Seðlabanka Íslands, sem heldur utan um ýmsar kröfur og gerninga sem lentu hjá honum eftir bankahrun, lækka gríðarlega á milli ára. Skuld félagsins við Seðlabankann lækkaði um 41,5 milljarða. Heildareignir Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) minnkuðu um 136,4 milljarða króna í fyrra. Helsta ástæða þess er að virði veðkrafna á fjármálafyrirtæki sem eru í slitameðferð lækkaði um 180 milljarða króna. Þetta kemur fram í ársreikningi ESÍ sem var samþykktur á stjórnarfundi félagsins 29. mars. Reikningnum var skilað inn til ársreikningaskrár 23. ágúst síðastliðinn.