Endurskipulagning MP banka liggur fyrir og verður kynnt á aðalfundi bankans á morgun, föstudag. Í henni felst að bankanum verður skipt í tvennt. Annars vegar verður til eignarhaldsfélag sem mun aðallega halda utan um eignir í Úkraínu. Það verður rekið á gömlu kennitölu MP banka og verður í eigu núverandi hluthafa bankans.

Hins vegar verður innlend starfsemi MP banka og starfsemi hans í Litháen færð yfir í dótturfélag bankans sem heitir nb.is sparisjóður. Það félag var á sínum tíma keypt úr þrotabúi SPRON. Nýi hluthafahópurinn mun eignast nb.is-sparisjóð að öllu leyti.

Nánar er fjallað um nýja eigendur og skipulag MP banka í Viðskiptablaðinu í dag. Greint var frá því á vb.is í morgun að þrír erlendir aðilar munu eiga allt að 20% hlut í MP banka.

Annar aðaleigandi enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur, Joe Lewis, er í nýjum hluthafahópi og einnig mun breska Rowland-fjölskyldan, sem keypti rekstur Kaupþings í Lúxemborg og breytti nafninu í Banque Havilland, vera í hluthafahópnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.