Svissneskir bankar hafa tilkynnt um þrjátíu tilvik þar sem grunur leikur á að einstaklingar tengdir fyrrum forseta Túnís, Zine al-Abidine Ben Ali, reyni að þvo peninga. Allar tilkynningarnar komu eftir að svissnesk yfirvöld frystu eigur Ben Ali. Wall Street Journal greinir frá í dag og segir að seinagangur bankanna til að tilkynna um peningaþvættið sýni mögulega veikleika svissneska bankakerfisins þegar kemur að getu þess til að tilkynna um mögulega glæpi.

Þá er haft eftir sérfræðingi á sviði endurheimtu eigna að Bandarikin og Bretland bregðist of hægt við. Hann segir að frysta þurfi eignir fyrrum stjórnarmanna í Túnis og Egyptalandi strax. Að öðrum kosti sé þessum fyrrum ráðamönnum gefinn kostur á að færa eignir sínar til annarra landa.