Eignir heimila lækkuðu í janúar að raunvirði um 1% frá fyrri mánuði samkvæmt Eignaverðsvísitölu Kaupþings. Í Hálffimm fréttum Kaupþings segir að mestu muni um lækkun hlutabréfaverðs um 13% í janúar, hinsvegar hækkaði bæði verð fasteigna og skuldabréfa milli mánaða. Vísitalan endurspeglar almenna eignasamsetningu heimila þar sem tekið er mið af þróun fasteigna-, hlutabréfa- og skuldabréfaverðs. Hækkun fasteignaverðs í janúar byggir þó á fáum samningum, veltutölur hafa dregist hratt saman og eru nú í sögulegu lágmarki. Lækkun hlutabréfa í mánuðinum er ein sú mesta fyrir utan lækkunina í nóvember á síðasta ári og gefur íslenski hlutabréfamarkaðurinn enn eftir. Úrvalsvísitalan lækkaði samfellt frá 29. janúar s.l. til gærdagsins.

Lækkandi eignaverð dregur úr neyslu

Rýrnun á eignaverði heimila hefur bein áhrif á einkaneyslu, þar sem geta fólks til veðsetningar og lántöku dregst saman. Vegna þróunarinnar á fasteignamarkaði undanfarnar víkur hefur Greiningardeild Kaupþings endurskoðað spá sína um fasteignaverð. Er nú gert ráð fyrir hröðum viðsnúningi í fasteignaverði og því spáð að íbúðaverð taki að lækka í lok árs og lækkunin muni gæta allt fram til ársins 2009. Lækkun á eignamörkuðum, bæði á hlutabréfum og fasteignum, mun kæla hagkerfið á næstu misserum og draga úr frekari neyslu landsmanna.