Eignaverðsvísitala greiningardeildar Kaupþings banka lækkaði um 1,5% að raunvirði í mars en undanfarna tólf mánuði hefur eignaverð á Íslandi hækkað um 16% að raunvirði, samkvæmt greiningardeild bankans.

Eignavísitalan er þannig úr garði gerð að fasteignverð vegur 50%, hlutabréfaverð vegur 20% og vægi skuldabréfa er 30%.

Fasteignverð hækkaði um 1,7% í mars, hlutabréfaverð lækkaði um 11% og verð skuldabréfa lækkaði um 0,67% í síðasta mánuði.

Vísitalan hækkaði um 25% að nafnvirði árið 2005 og heildareignir heimila í landinu námu um 4000 milljarðar við síðustu áramót. Eignir landsmanna hækkuðu því um 800 milljarða á síðasta ári.

Að sama skapi hafa eignir heimilanna dregist saman um 6 milljarða í mars, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka.

Það hefur hægt á eignaverðs hækkunum að undanförnu en hækkanirnar náðu hámarki í maí 2005, þá var raunhækkun eignaverðsvísitölunnar rúmlega 27%, að sögn greiningardeildar.

?Líkur eru á frekari raunlækkun vísitölunnar í næsta mánuði þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um rúmlega 1% í síðasta mánuði en úrvalsvísitalan er lægri nú en í upphafi mánaðar, þrátt fyrir hækkun að undanförnu, og skuldabréfaverð er svipað," segir greiningardeildin.