Eignir heimilanna jukust um 2,3% að raunvirði í janúar miðað við eignaverðsvísitölu Greiningardeildar Kaupþings. ?Tólf mánaða raunbreyting vísitölunnar nemur nú 1,7% en í síðasta mánuði var 12 mánaða vöxturinn 1,4% sem er sá minnsti til þessa í yfirstandandi hagsveiflu.

Eignaverðsvísitalan samanstendur af fasteigna-, hlutabréfa- og skuldabréfaverði og munaði mest um 2,3% hækkun íbúðaverðs að þessu sinni. Auk þess hækkuðu hlutabréf um tæp 10% í mánuðinum en hlutabréfaverð er sá hluti vísitölunnar sem hefur minnst vægi. Á móti hækkun hlutabréfaverðs kom nokkur verðlækkun á skuldabréfum en ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa er í hæstu hæðum um þessar mundir,? segir greiningardeildin.

Hún segir í síðustu niðursveiflu, árið 2001, fór 12 mánaða breyting eignaverðsvísitölunnar niður í tæplega 10% samdrátt. ?Var þar um að kenna lækkun á flestum eignamörkuðum á sama tíma og verðbólguskot reið yfir. Í núverandi hagsveiflu hefur eignaverðsvísitalan lægst farið í 1,4% eins og fyrr sagði. Ef það versta er yfirstaðið á eignamörkuðum í þessari niðursveiflu hlyti það að teljast ákaflega mjúk lending á þennan mælikvarða,? segir greiningardeildin.

Hún segir að hlutabréfamarkaðurinn sem lækkaði um fjórðung á þennan mælikvarða síðastliðið sumar hefur hækkað um 32% að raunvirði síðastliðna sex mánuði. ?Sex mánaða raunbreyting fasteignaverðs hafði farið lækkandi síðastliðna sex mánuði en er nú farin að rísa eftir umtalsverða hækkun janúarmánaðar,? segir greiningardeildin.