Inkasso hagnaðist um 44 milljónir króna árið 2019 sem er 28% aukning milli ára. Tekjur félagsins námu 440 milljónum, þar af voru 423 milljónir tekjur af innheimtu, og drógust saman um 17 milljónir milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 86 milljónum og hækkaði um 46% milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins nam 60 milljónum króna.

Eignir félagsins jukust um ríflega 121% milli ára og námu 410 milljónum í lok ársins 2019. Félagið keypti kröfusöfn vanskilalána sem hækkaði eignir um 146 milljónir. Skuldir félagsins námu 302 milljónum og nam eigið fé um 109 milljónum.

Sjóðstreymi félagsins var neikvætt um 8,6 milljónir króna en fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 204 milljónir vegna nýs langtímaláns. Fjárfestingahreyfingar félagsins voru neikvæðar um 333 milljónir.

Þórir Örn Árnason er framkvæmdastjóri Inkasso. Félagið er alfarið í eigu ALVA Capital.