Íslendingar hafa aldrei verið duglegri við að fjárfesta erlendis en á undanförnum árum. Eignir Íslendinga erlendis námu 1.172 mö.kr. í lok mars síðastliðnum og höfðu þá aukist um 760 ma.kr. eða nær þrefaldast á tveimur árum. Eignirnar eru nú ríflega fimmtungi meiri en áætluð landsframleiðsla ársins og hafa ekki áður verið meiri. Þessar fjárfestingar eru merki um miklar breytingar á íslensku efnahagslífi sem með þessu er orðið mun samþættara erlendri hagþróun en áður var segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er bent á að stórum hluta er hér um að ræða útrás innlendra fyrirtækja en fjárfestingar þeirra erlendis hafa vakið mikla eftirtekt bæði innanlands og utan. Bein fjárfesting erlendis var komin í 275 ma.kr. í lok mars síðastliðinn eða nær þriðjungur af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Fyrir um áratug voru slíkar fjárfestingar varla til. Mikið hefur verið fjárfest í matvælaiðnaði, lyfjaiðnaði og fjármálaþjónustu á tímabilinu en einnig eru í þessum tölum fjárfestingar í erlendum eignarhaldsfélögum.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.