Skattaskjól
Skattaskjól

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Eignir Íslendinga í sjö þekktum skattaskjólum helminguðust að raunvirði á árinu 2010. Þær námu 64,8 milljörðum króna í lok síðasta árs en höfðu verið 131,1 milljarður króna ári áður. Stærsti hluti eigna Íslendinga, sem geymdur er í skattaskjólum, er á Cayman-eyjum, Tortóla-eyju og Kýpur, eða rúmlega 90% þeirra. Tæpur helmingur eignanna er geymdur á Kýpur. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um fjármunaeign íslenskra aðila erlendis.

Ástæða þess að íslenskir aðilar ákveða að geyma fjármuni sína í suðrænum skattaskjólum eru aðallega þrjár; lægri skattar, meiri leynd yfir eignarhaldi og litlar sem engar kröfur um skil á skjölum á borð við ársreikninga.

Mikið fé í gegnum Cayman

Eignir Íslendinga í þekktu skattaskjólunum Tortóla (Bresku Jómfrúareyjunum), Cayman-eyjum, Kýpur, Mön, Jersey, Guernsey og Máritíus höfðu aukist töluvert frá bankahruni. Í árslok 2007 námu þær 45,3 milljörðum króna en jukust í 74,4 milljarða króna á hrunárinu 2008. Sú hækkun útskýrist þó að töluverðu leyti með veikingu íslensku krónunnar, enda eru eignirnar færðar á gengi hvers árs fyrir sig.

Árið 2009 tvöfölduðust hins vegar eignir Íslendinga í þessum sjö skattaskjólum sem Seðlabankinn hafði vitneskju um. Einungis lítinn hluta aukningarinnar mátti rekja til veikingar íslensku krónunnar sem féll um 7% á því ári. Þorri aukningarinnar var tilkominn vegna þess að eignir á Cayman-eyjum fóru úr 400 milljónum króna í 58,3 milljarða króna. Þessi gríðarlega mikli munur skýrist að mestu leyti af því að Seðlabankinn hafði ekki áður haft aðgang að upplýsingum um fjármunaeign Íslendinga á Cayman-eyjum.

Féð sjálft í Lúxemborg

Þótt bankareikningar Íslendinga, eða verðbréf í þeirra eigu, séu skráðir á þessum framandi stöðum er það þó ekki þannig að raunverulegir fjármunir séu geymdir þar. Í tilfelli Íslendinga er oftast um að ræða bankareikninga sem stofnaðir voru og er stjórnað af dótturfélögum gömlu íslensku bankanna í Lúxemborg. Fjármunirnir sjálfir eru síðan geymdir í Lúxemborg.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.