*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 28. september 2020 13:39

Eignir íslenskra sjóða 959 milljarðar

Heildareignir annarra fjármálafyrirtækja er um 1.331 milljarður króna. Alls eru 214 sjóðir hérlendis og nema eignir þeirra 959 milljörðum.

Ritstjórn
Húsnæðis- og mannvirkjunarstofnun, sem er innan annarra fjármálafyrirtækja, er til húsa í Borgartúni 21.
Haraldur Guðjónsson

Heildareignir verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða námu um 959 milljarða króna í lok ágúst sem hækkuðu um 6,5 milljarða milli mánaða. Fjöldi sjóða hérlendis er alls 214 sem er óbreyttur fjöldi frá fyrri mánuði. Þar af eru 119 fagfjárfestasjóðir,  58 fjárfestingarsjóðir og 37 verðbréfasjóðir. Frá þessu er greint á vef Seðlabankans.

Heildareignir annarra fjármálafyrirtækja í lok ágúst námu 1.331 milljarði króna og hækkuðu þær um 2,1 milljarð milli mánaða. Til samanburðar voru heildareignir Landsbankans ríflega 1.500 milljarðar í lok annars ársfjórðungs 2020.

Nær allar eignir annarra fjármálafyrirtækja eru innlendar eða um 1.279 milljarðar króna. Skuldir þeirra námu um 1.115 milljarða króna og eigið fé var um 217 milljarðar. Til annarra fjármálafyrirtækja teljast Húsnæðis- og mannvirkjunarstofnun (áður íbúðalánasjóður), fjárfestingabankar, eignarleigur, greiðslukortafyrirtæki og fjárfestingalánasjóðir.

Eignir verðbréfasjóða námu 176 milljörðum króna, eignir fjárfestingarsjóða 385 milljarða og eignir fagfjárfestingasjóða um 398 milljörðum.