Í gærmorgun þegar Karl Bretaprins vaknaði voru eignir hans metnar á um 75 milljónir punda, um 14 milljarða króna. Þetta eru mun minni auðævi en móðir hans Elísabet átti þegar hún lést í gær.

Helsta uppspretta eigna Karls var sjóður sem var stofnaður árið 1337 og nefnist Duchy of Cornwall. Sjóðurinn var settur á stofn til að tryggja prinsinum af Wales nægar tekjur.

Þegar Karl fór að sofa í gærkvöldi þá var hann orðinn konungur. Sumir fjölmiðlar fullyrða að hann muni erfa persónulegar eignir móður sinnar að fullu, um 370 milljónir punda eða 60 milljarða króna. Má þar nefna bandarísku viðskiptablöðin Forbes og Fortune, en þau fylgjast náið með eignum auðmanna.

Þetta er hins vegar ósennilegt. Drottningarmóðirin eftirlét til dæmis barnabörnum sínum töluverðan hluta eigna sinna þegar hún lést þótt Elísabet drottning hafi erft stærstan hluta dánarbúsins.

Karl Bretakonungur og Camilla Parker Bowls mæta á Sambandsleikana í sumar. Fararskjótinn er ekki af ódýrari gerðinni, 52 ára gamall Aston Martin Volante en Karl fékk bílinn nýjan árið 1970.
© epa (epa)