Eignir Kaupþings jukust um rúmlega 50 milljarða eða rúm 6% á árinu 2011. Þetta kemur fram í tilkynningu frá slitastjórn Kaupþings. Sé leiðrétt fyrir áhrifum vegna 4,25% gengislækkunar krónunnar á tímabilinu jukust eignir um 15 milljarða. Í lok árs 2011 voru eignir Kaupþings metnar á 875 milljarða.

Heildarrekstrarkostnaður Kaupþings á síðasta ári var 6,3 milljarðar króna sem er 0,3% af nafnvirði heildareigna. Rúmlega helmingur kostnaðarins, eða um 51%, er vegna erlendrar aðkeyptrar sérfræðiráðgjafar sem nam rúmum 3,2 milljörðum króna.

Hluti þessa er kostnaður við aðgerðir og rannsóknarvinnu vegna endurheimtuaðgerða erlendis. Þetta er vinna sem staðið hefur yfir frá haustinu 2008 og segir í tilkynningunni að slitastjórnin stefni á að fá kostnaðinn endurgreiidan í gegnum dómsmál.

Þá renna 313 milljónir króna í skattgreiðslur til ríkissjóðs, eða sem samsvarar 5% af heildarkostnaði.