Bókfært virði eigna Kaupþings jókst um 16,2 milljarða króna í fyrra og var 816 milljarðar króna um síðustu áramót. Kemur þetta fram í ársreikningi Kaupþings, sem birtur var á heimasíðu slitabúsins í þessu.

Hrein virðisbreyting eigna var jákvæð á tímabilinu og nam 54,9 milljörðum króna en á móti námu neikvæð áhrif vegna gengisbreytinga gjaldmiðla 35,2 milljörðum. Til viðbótar bókfærðum eignum voru 19,3 milljarðar króna geymdir á vörslureikningi í lok tímabilsins til að mæta umdeildum seint framkomnum forgangskröfum til samanburðar við 19,2 milljarða í lok árs 2014.

Handbært fé Kaupþings stóð í 410,2 milljörðum króna í lok árs 2015 og jókst um 8,6 milljarða eða um 2,1% á árinu.

Skuldbinding í lok árs vegna stöðugleikaframlags var reiknuð 135,8 milljarðar króna. Kröfur á hendur Kaupþingi hafa verið færðar niður í 676,4 milljarða króna í samræmi við ákvæði staðfests nauðasamnings og skilmála breytanlegs skuldabréfs. Heildarskuldir í árslok 2015 námu 816,0 milljörðum króna.

Rekstrarkostnaður Kaupþings nam 10,2 milljörðum króna á árinu samanborið við 5,0 milljarða króna á árinu 2014. Stærstur hluti rekstrarkostnaðarins, eða um 7,1 milljarður króna, er vegna aðkeyptrar erlendrar sérfræðiráðgjafar.

Rekstrarkostnaður Kaupþings á ársgrundvelli nam 1,25% af bókfærðu virði eigna samanborið við 0,7% árið áður. Í tilkynningunni segir að hækkun rekstrarkostnaðar á milli ára sé fyrst og fremst tilkomin vegna erlendrar sérfræðiráðgjafar í tengslum við undirbúning og framkvæmd nauðasamnings sem hafi aukist verulega á milli ára. Til viðbótar rekstrarkostnaði er gjaldfærður virðisaukaskattur vegna fyrri tímabila samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra að fjárhæð 1,7 milljarður króna. Ef undan eru skildar greiðslur vegna virðisaukaskatts á árinu og fyrri tímabilum stendur innlendur rekstrarkostnaður í stað á milli ára.

Í samræmi við ákvæði nauðasamnings hefur Kaupþing það sem af er árinu 2016 innt af hendi stöðugleikaframlag til íslenska ríkisins og hafið útgreiðslur til kröfuhafa í formi peningagreiðslna að fjárhæð 242,9 milljarða króna, auk útgáfu breytanlegs skuldabréfs í pundum að fjárhæð 588,1 milljarður króna og hlutafjár í krónum að fjárhæð 13,9 milljarðar.