Vöxtur KB banka á síðustu árum hefur verið ótrúlegur eins og kemur í ljós þegar rekstrar- og efnahagsreikningar bankans undanfarin ár eru skoðaðir. Árið 2000 nam hagnaður bankans 1.013 milljónum króna en á fyrri helmingi þessa árs var hagnaðurinn 24.766 milljónir króna eða liðlega 24-sinnum hærri en allt árið 2000.

Heildareignir KB banka á þessum fimm og hálfa ári hafa liðlega 9-faldast - aukist úr 207.620 milljónum króna í 1.899.203 milljónir. Á sama tíma hefur kostnaðarhlutfall lækkað stöðugt og var 30,3% á fyrri helmingi þessa árs borið saman við 76,4% árið 2000. Og hluthafar geta einnig glaðst yfir því að hagnaður á hlut hefur margfaldast.'Allt árið 2000 var hagnaður pr. hlut 4,2 krónur en á fyrri hluta ársins var hann 37,9 krónur.