Eignir ýmissa lánafyrirtækja námu 1.091,3 milljörðum króna í lok október og lækkuðu um 40,1 millarð á milli mánaða. Sjóðseignir lækkuðu um 5 milljarða króna og innstæður í Seðlabankanum lækkuðu um 2,6 milljarða.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans.

Útlán og markaðsskuldabréf námu 940,8 milljörðum króna í lok október og lækkuðu um 28,9 milljarða á milli mánaða. Kröfur á lánastofnanir námu 98,3 milljörðum króna og hækkuðu um 4,2 milljónir. Aðrar eignir lækkuðu nettó um 7,8 milljarða króna.

Þá kemur fram að verðbréfaútgáfa nam 896,6 milljörðum króna og hækkaði um 5,4 milljarða.  Innlendar lántökur námu 36 milljörðum króna og lækkuðu um 23,7 milljarða.

Erlendar lántökur lækkuðu um 2,5 milljarða króna og námu 90,7 milljörðum króna í lok október. Aðrar skuldir lækkuðu um 8 milljarða. Eigið fé ýmissa lánafyrirtækja nam 46,2 milljörðum króna og lækkaði um 11,3 milljarða í lok október.

Fram kemur að starfandi lánafyrirtækjum fækkaði um eitt í mánuðinum en starfsleyfi Saga Fjárfestingarbanka var afturkallað 3. október sl.