Eignir ýmissa lánafyrirtækja námu 1.112,4 milljörðum króna í lok október og lækkuðu um 13,6 milljarða króna á milli mánaða, samkvæmt gögnum Seðlabankans. Til ýmissa lánafyrirtækja teljast Íbúðalánasjóður, fjárfestingarbankar, eignarleigur, greiðslukortafyrirtæki og fjárfestingarlánasjóðir.

Tekið er fram á vef seðlabankans að virði útlána og eignaleigusamninga sé óljóst í kjölfar dóms Hæstaréttar.

Innstæður þeirra í Seðlabankanum lækkuðu um 10,5 milljarða og námu 30,5 milljörðum króna í lok október. Kröfur á innlendar lánastofnanir lækkuðu um 2,9 milljarða og námu 70,7 milljörðum króna. Útlán og eignaleigusamningar námu 964,8 milljörðum króna.

Önnur útlán hækkuðu um 6,6 milljarða króna og námu 13,2 milljörðum króna en eignaleigusamningar lækkuðu um rúmlega 8 milljarða og námu 65,9 ma.kr. í lok október. Skuldir ýmissa lánafyrirtækja námu 1.081,5 milljörðum króna í lok októberog lækkuðu um 14,8 milljarða á milli mánaða.