Eignir ýmissa lánafyrirtækja námu 1.294,8 milljörðum króna í lok desember og lækkuðu um 8,1 milljarð króna milli mánaða.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans en innstæður í Seðlabankanum hækkuðu um tæpa 5 milljarða í mánuðinum og námu um 35 milljörðum króna í lok desember. Frá desember 2008 hafa innstæður í Seðlabankanum hækkað um 30,6 milljarða króna.

Verðtryggð skuldabréf námu 848,2 milljörðum króna í lok mánaðarins og hækkuðu um 6,2 milljarða frá fyrra mánuði. Fram kemur að á einu ári hafa verðtryggð skuldabréf hækkað um 193,5 milljarða króna eða um tæp 30%.

Þá náðu eignarleigusamningar 135,5 milljörðum króna í lok desember og lækkuðu um tæpa 12 milljarða króna á milli mánaða.

Eigið fé lækkaði um 10,5 milljarða króna í desember og stóð í 65,4 milljörðum króna í lok árs 2009. Þó kemur fram að tölur fyrir desembermánuð eru bráðabirgðatölur og geta breyst.