Eignir lífeyrissjóðanna jukust um 54 milljarða á janúar og námu 1.220,4 milljörðum í lok mánaðarins, samkvæmt upplýsingum greiningardeildar Glitnis, sem áður hét Íslandsbanki.

?Eignaaukninguna má nær alla rekja til aukningar í verðbréfum með breytilegar tekjur sem jukust um 50 milljarða króna í janúar og námu 628 milljörðum í mánaðarlok. Þar munaði mest um aukningu í hlutabréfum sem jukust um 34,5 milljarða í mánuðinum, þar af 32,7 milljarða í innlendum hlutabréfum," segir greiningardeildin.

Glitnir segir að eignir í hlutabréfasjóðum hafi aukist um 9,6 milljarða króna sem er nær eingöngu eign í erlendum hlutabréfasjóðum. Eignir í verðbréfasjóðum jukust um 5,9 milljarða þar af 2,5 milljarða í innlendum og 3,4 milljarða í erlendum. Eignir í verðbréfum með föstum tekjum jukust um fjóra milljarða. í janúar og námu 593 milljörðum í mánaðarlok.

Úrvalsvísitala aðallista í Kauphöllinni hækkaði um 13,4% í janúar sem skýrir að mestum hluta eignaaukningu lífeyrissjóðanna í innlendum hlutabréfum í janúar. Vísitalan hækkaði um rúmlega 5% í febrúar og því má gera ráð fyrir áframhaldandi eignaaukningu í innlendum hlutabréfum í febrúar hjá lífeyrissjóðum þó hún verði langt frá því að vera aukning í sama mæli og í janúar, segir greiningardeildin.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað verulega í kjölfar neikvæðrar skýrslu bandaríska fjárfestingabankans Merrill Lynch. Einnig hafa breytingar lánshæfismatsfyrirtækisins Fitch Ratings á horfum íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar valdið lækkun á gengi hlutabréfa, segja sérfræðingar, og mun því eignaaukningin ganga nokkuð til baka.