Eignir lífeyrissjóðanna námu 1.358 milljörðum króna í lok júní og höfðu þá aukist um 1,9% í mánuðinum samkvæmt tölum Seðlabankans.

Greining Glitnis segir frá því í Morgunkorni sínu að athyglisvert sé að hlutabréfaeign sjóðanna hefur dregist saman um tæpa 6 milljarða þar af lækka eignir í innlendum hlutabréfum um 10,3 milljarða sem jafngildir 5% lækkun á eign þeirra. Skýringuna á þessu má rekja til samspils þess að bæði hafa innlend hlutabréf lækkað um 4,1% í mánuðinum og einnig virðast sjóðirnir hafa selt nokkuð af bréfum.

Eignir lífeyrissjóðanna í innlendum verðbréfasjóðum lækka sem nemur um 500 milljónum króna. Eignir sjóðanna í erlendum hlutabréfum hækka um 4,3 milljarða og má skýra þá hækkun að mestum hluta með lækkun á gengi krónunnar í júní en einnig með hækkun á erlendum hlutabréfamörkuðum. Þetta er mikill viðsnúningur frá því í síðasta mánuði en þá lækkuðu allar helstu vísitölur erlendra hlutabréfa töluvert segir í Morgunkorni greiningar Glitnis.

Frá áramótum hafa eignir lífeyrissjóðanna aukist um 147 milljarða króna eða 12,1% miðað við 8,4% á sama tíma í fyrra. Áhersla sjóðanna á undanförnum misserum hefur verið að fjárfesta í erlendum verðbréfum og miðað við gengisþróun krónunnar frá áramótum hefur sú stefna að skilað sér í aukinni lífeyriseign landsmanna.