Eignir lífeyrissjóðanna námu 962 mö.kr. í lok október og drógust saman um 8 ma.kr. á milli mánaða, einkum vegna lækkunar á innlendum hlutabréfamarkaði segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Svo virðist sem sjóðirnir hafi einkum fjárfest í skuldabréfum fyrirtækja og erlendum hlutabréfasjóðum í október. Mikil lækkun var á stöðu lífeyrissjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum í október enda lækkaði Úrvalsvísitala Aðallista Kauphallarinnar um 11,5% í mánuðinum.

Í morgunkorninu er bent á að innlend hlutabréf hafa hins vegar gefið mjög góða ávöxtun fyrir árið í heild. Nokkuð virðist hafa verið um uppgreiðslur á sjóðfélagalánum í mánuðinum og lækkaði staða þeirra um 1,6 ma.kr. Að lokum virðast lífeyrissjóðirnir hafa selt íbúðabréf að fjárhæð um 3,5 ma.kr. í október.

Frá áramótum hafa eignir lífeyrissjóðanna aukist um ríflega 138 ma.kr. Fjárfestingar lífeyrissjóðanna virðast einkum hafa beinst að erlendum hlutabréfamörkuðum á þessu ári. Staða þeirra í erlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum jókst um 32 ma.kr. á fyrstu tíu mánuðum ársins. "Ávöxtun á erlendri hlutabréfaeign sjóðanna hefur hins vegar verið mjög slök á þessu ári," segir í Morgunkorni.

Staða lífeyrissjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum hefur einnig aukist mikið, um 32 ma.kr., sem einkum má rekja til mjög góðrar ávöxtunar á innlendum hlutabréfamarkaði í ár. Svo virðist sem lífeyrissjóðirnir hafi leitast við að selja hluta af innlendri hlutabréfaeign sinni en vægi innlendra hlutabréfa af heildareignum þeirra er nú í kringum 13,4% og hefur aukist um 1,7 prósentustig frá áramótum. Vægi skuldabréfa og sjóðfélagalána hefur minnkað úr 56,5% í upphafi árs í 53,2% í lok október.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.