Seðlabanki Íslands hefur gefið út tölur um eignir lífeyrissjóðanna í lok febrúar á þessu ári. Hrein eign lífeyrissjóðanna var 1.614 milljarða króna í lok febrúar síðastliðnum og hafði lækkað um 8,2 milljarða króna í mánuðinum.

Lækkunin frá áramótum nemur hins vegar rúmlega 33 milljörðum króna eða um 2% eins og bent er á á vef Landssamtaka lífeyrissjóða.

Tólf mánaða aukning á eignum  var 6,5% samanborið við 17% tólf mánaða tímabilið þar á undan. Aukning bankainnstæðna var 2,5 milljarðar króna og verðbréfaeign lækkaði um 10,1 milljarða króna.

Í febrúar lækkaði innlend verðbréfaeign sjóðanna um 18.7 milljarða króna í en erlend verðbréfaeign hækkaði um 8,6 milljarða króna. Helsta ástæða fyrir lækkun eignanna má rekja til verulegrar lækkunar á innlendum hlutabréfum lífeyrissjóðanna, en lækkunin frá áramótum nam tæplega 42 milljörðum króna eða 17,5%.

Lækkun á erlendri verðbréfaeign nam hins vegar aðeins 1,3% frá áramótum.