Eignir lífeyrissjóðanna námu 1.425 milljörðum króna í lok október og jukust um tæpa níu milljarða í mánuðinum, segir greiningardeild Glitnis.

?Aukning var mest í verðbréfum með föstum tekjum en þau hækkuðu um tæpa 9,4 milljarða króna. Eignir í íbúðabréfum jukust mest eða um 2,6% í október. Gera má ráð fyrir að sjóðirnir hafi notað tækifærið og keypt töluvert af bréfum í mánuðinum eftir að krafa þeirra hækkaði nokkuð snarpt í mánuðinum. Tæplega 5% verðlækkun varð á lengstu bréfunum sem lífeyrissjóðirnir kaupa helst.

Einnig varð nokkur aukning í erlendum verðbréfum eða um 1,3%. Sú aukning er að mestu tilkomin vegna hækkunar á erlendum hlutabréfavísitölum í október en heimsvísitala Morgan Stanley hækkaði um 3%. Á móti kom að gengi krónunnar hækkaði í mánuðinum sem rýrir erlendar eignir sjóðanna. Má því gera ráð fyrir í ljósi þessa að sjóðirnir hafi frekar verið að losa erlendar stöður heldur en að bæta við,? segir greiningardeildin.

Grundvallarbreyting á fjárfestingarstefnu sjóðanna

Eignir lífeyrissjóðanna hafa aukist um 205 milljarða króna það sem af er ári. Telur greiningardeildin að eignir lífeyrissjóðanna muni vera um 130% í lok árs.

?Þetta hlutfall er mjög hátt í alþjóðlegum samanburði. Árið 2004 var Ísland með hæsta hlutfallið af OECD löndunum hvað þetta varðar. Áður fyrr fjárfestu íslenskir lífeyrissjóðir einkum í ríkistryggðum skuldabréfum og sjóðsfélagalánum. Hins vegar hefur orðið breyting þar á síðasta áratuginn.

Mikil aukning hefur orðið á fjárfestingum í hlutabréfum og erlendum verðbréfum. Fjárfesting í hlutabréfum árið 1990 var um 1% en er nú rúmlega 37%. Eignir sjóðanna í erlendum verðbréfum nema nú um 27% en voru ekki nema 2% árið 1995,? segir greiningardeildin