Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris nam 1.333 milljörðum króna í lok maí og lækkaði um rúma 11 milljarða króna á milli mánaða samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti í vikunni, segir greiningardeild Glitnis og bendir á að þetta sé í fyrsta skipti í rúmt hálf ár sem eignir sjóðsins lækka.

?Ástæðan er rúmlega 15,5 milljarða króna (-6,4%) lækkun á eign sjóðanna í erlendum hlutabréfasjóðum og 4,5 milljarða króna (-7,6%) lækkun í erlendum hlutabréfum. Kemur það til vegna lækkunar á verði hlutabréfa á erlendum mörkuðum en S&P500 vísitalan lækkaði um 3% í mánuðinum og FTSE vísitalan um tæp 5%," segir greiningardeildin.

Því til viðbótar lækkaði gengi krónu um 1,3% á tímabilinu sem jók á áhrif eignalækkunarinnar en til mótvægis eign þeirra í innlendum hlutabréfum um tæpa 8,6 milljarða króna (4%).

?Má ætla að sjóðirnir hafi aðeins bætt við sig í innlendum hlutabréfum í mánuðinum en Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,4% í maí. Eignir lífeyrissjóðanna hafa vaxið um tæpa 126 milljarða króna eða um 10,4% frá upphafi árs. Mikil áhersla hefur verið á fjárfestingu í erlendum verðbréfum en eitthvað virðist hafa dregið úr fjárfestingu á þeim með lækkandi gengi krónunnar," segir greiningardeildin.

Lífeyrissjóðirnir hafa auk þess verið að fjárfesta í skuldabréfum en greiningardeildin segir að framboð af þeim hafi verið með mesta móti en skuldabréfa eign sjóðanna hefur stækkað um 17,7 milljarða eða um 16%.

?Áhugavert verður að fylgja með þróun fjárfestinga hjá lífeyrissjóðunum í framhaldinu. Að okkar mati má búast við að sjóðirnir haldi áfram að bæta við eign sína í erlendum verðbréfum þrátt fyrir að aðeins hafi dregið tímabundið úr þunga þeirra fjárfestinga. Er það ekki síst vegna þess að enn er mikið svigrúm fyrir sjóðina til fjárfestinga í hlutabréfum og erlendum verðbréfum," segir greiningardeildin.