Eignir lífeyrissjóðanna jukust um 31 ma.kr. í október síðastliðnum og er það mesta aukning eigna í einum mánuði síðan í mars. Það sem af er þessu ári hafa eignir lífeyrissjóðanna aukist um að meðaltali rétt tæplega 23 ma. kr í mánuði hverjum. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag.

Gengisveikingin skýrir eignaaukningu
Aukningin í október er tilkomin vegna  vegna mikillar aukningar bæði innlendra og erlendra eigna sjóðanna samkvæmt greiningunni. Erlendar eignir jukust um 11,5 ma.kr. í október og innlendar eignir jukust um 14,7 ma.kr. á sama tímabili.

Aukning erlendu eignanna er að mestu leyti tilkomin vegna 2% gengisveikingar krónunnar í október. Í mánuðinum stóðu erlendar hlutabréfavísitölur ýmist í stað eða lækkuðu samkvæmt greiningunni.

Þess má geta að þegar litið er til gengisþróunar frá lok nóvember í fyrra til lok nóvember á þessu ári þá hefur gengið veikst um rúm 6%. Því eykst virði lífeyrissjóðanna talið í krónum á meðan það lækkar ef talið væri í öðrum gjaldmiðlum.

Í greiningunni kemur fram að að hrein eign sjóðanna hefur aukist um 13,2% undanfarna 12 mánuði. Að teknu tilliti til verðbólgu er raunaukning eigna sjóðanna  minni, eða 8,6% á sama tímabili. Raunávöxtun eigna þeirra hefur þó verið öllu lakari enda nema iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga mun hærri fjárhæð en greiðslur til lífeyrisþega og úttektir séreignarsparnaðar.

Greining Íslandsbanka telur þetta verða fyrsta árið síðan 2006 sem raunávöxtun lífeyrissjóða fari að jafnaði yfir 3,5% tryggingarfræðilegt viðmið þeirra.