Eignastaða lífeyrissjóðanna jókst um 18,7 milljarða króna á milli mánaða í desember og áttu nam hrein eign þeirra í lok mánaðar tæpum 2.097 milljörðum króna. Þetta er tæplega 8,6% hækkun á síðasta ári. Eignir lífeyrissjóðanna hafa aldrei verið meiri. Til samanburðar námu eignir lífeyrissjóðanna 1.794 milljörðum króna þegar best lét fyrir hrun. Það var í ágúst árið 2008. Tveimur mánuðum síðar, í lok október, hafði eignasafn þeirra rýrnað um rúm 13%.

Fram kemur í lífeyrissjóðaskýrslunni svokölluðu sem kom út fyrir helgi að lífeyrissjóðirnir hafi tapað 480 milljörðum króna frá byrjun árs 2008 og til ársloka 2010. Þar af töpuðu þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins samanlagt 255 milljörðum króna. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins kom verst út með um 100 milljarða króna tap. Það jafngilti 29,9% af eignum hans. Lífeyrissjóður verzlanamanna tapaði 80 milljörðum, sem sambærilegt hlutfall af eignum. Lífeyrissjóðurinn Gildi tapaði svo 75 milljörðum króna, 32% af eignum sjóðsins.

Um bráðabirgðatölur að ræða

Í hagtölum Seðlabankans kemur fram að útlán og verðbréfaeignir lífeyrissjóðanna hafi hækkað um 9,3 milljarða króna á milli mánaða. Þar af hækkaði innlend verðbréfaeign þeirra um 3 milljarða. Hún nam 1.519 milljörðum króna í lok desember. Þá hækkaði erlend verðbréfaeign um 6 milljarða króna á milli mánaða og nam hún um 470 milljörðum króna í lok mánaðarins. Bankainnstæður hækkuðu sömuleiðis. Þær jukust um 6,3 milljarða á milli mánaða og námu 158 milljörðum króna í lok síðasta árs.

Seðlabankinn tekur fram að ekki liggi fyrir endanlegt uppgjör lífeyrissjóðanna og því um bráðabirgðatölur að ræða. Breytingar verða gerðar eftir því sem endurskoðun lífeyrissjóðanna liggur fyrir.

Lífeyrissjóðir - 2011
Lífeyrissjóðir - 2011

Heimild: Seðlabanki Íslands